154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

rekstrarleyfi til fiskeldisfyrirtækja.

[15:13]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Forseti. Lengi getur vont versnað hjá hæstv. ríkisstjórn. Nú ætlar þessi ríkisstjórn að gefa auðlindir þjóðarinnar, eða nánar tiltekið ætlar ríkisstjórnin að afhenda fiskeldisfyrirtækjum firðina okkar varanlega með ótímabundnum rekstrarleyfum sem hafa hingað til verið tímabundin til 16 ára í senn með möguleika á framlengingu að þeim tíma liðnum. Eins og við vitum, forseti, voru nær öll þessi leyfi gefin út án endurgjalds á sínum tíma en samt ætlar ríkisstjórnin núna að breyta lögum þannig að öll þessi rekstrarleyfi verði ótímabundin og þar á meðal leyfi sem þegar hafa verið veitt án endurgjalds. Hvað gengur fólki eiginlega til?

Nýr hæstv. matvælaráðherra, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, ætlar að mæla fyrir þessu frumvarpi á Alþingi á morgun og hefur tekið við þessu máli frá tveimur fyrrverandi matvælaráðherrum, fyrrverandi og núverandi foringjum Vinstri grænna, stjórnmálaflokks sem hefur á tyllidögum talað um þjóðareign auðlinda og mikilvægi þess að taka upp ákvæði um þjóðareign auðlinda í stjórnarskrá en án árangurs. Hvers konar þjóðareign er það að gefa þessi leyfi með varanlegum hætti til einkaaðila? Hver eru rökin og hvað breyttist? Af hverju mega þessi leyfi ekki vera tímabundin eins og flest önnur nýtingarleyfi á náttúruauðlindum? Meira að segja í orkuvinnslu þar sem fjárfestingar eru sannarlega bundnar til langs tíma og borga sig til baka yfir margra áratuga tímabil fá orkufyrirtækin ekki nema tímabundin rekstrarleyfi.

Ég spyr: Telur hæstv. ráðherra að það verði sátt um það í íslensku samfélagi að gefa laxeldisfyrirtækjum leyfi til að nota firðina okkar um aldur og ævi? Halda þau í alvörunni að þjóðin geti sætt sig við þetta, að þetta sé leiðin til að skapa samfélagslega sátt um þessa atvinnugrein og áframhaldandi vöxt og verðmætasköpun?