154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

rekstrarleyfi til fiskeldisfyrirtækja.

[15:15]
Horfa

matvælaráðherra (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það hefur auðvitað borið á því í umræðunni og við höfum séð það í fjölmiðlum m.a. að það sé verið að gefa heimildir til ókominnar framtíðar, eins og hv. þingmaður nefndi. Í lögunum í dag eru rekstrarleyfi gefin út til 16 ára í senn og það kom m.a. fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að löggjöfin væri óljós varðandi þessi atriði. Þar segir m.a., svo ég vitni í þá skýrslu, virðulegi forseti: „Ríkisendurskoðun telur að matvælaráðuneyti þurfi að taka af allan vafa um hvort rekstrarleyfi teljist tímabundin eða ótímabundin eign.“

Það var sérstaklega bent á það að þegar rekstrarleyfi rennur út þá hefur Matvælastofnun afar takmarkaðar heimildir til að synja aðila um endurnýjun þrátt fyrir að frávik hafi orðið í starfseminni eða hún ekki verið innan markmiða laganna. Það má því í rauninni segja að mörgu leyti að eins og staðan er í dag þá séu leyfin ótímabundin. Það eru líka því miður litlar heimildir til afturköllunar rekstrarleyfa í núgildandi lögum og það þýðir í raun að rekstraraðili í dag getur farið á svig við leyfið og þær skyldur sem eru settar á hann innan rammalöggjafarinnar vegna þessara takmörkuðu heimilda vegna þess að það er illfært að stöðva atvinnustarfsemi innan þeirra 16 ára sem leyfi er í gildi. Frumvarpið sem ég hyggst mæla fyrir á morgun er einmitt tilraun til að reyna að ná betur utan um það heldur en kannski núgildandi löggjöf gerir og samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef frá mínum sérfræðingum er betur og auðveldar hægt að bregðast við verði frávik í rekstri með því að breyta þessu með þeim hætti sem verður lagt til.