154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

rekstrarleyfi til fiskeldisfyrirtækja.

[15:17]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ef ég skil hana rétt er hér verið að viðurkenna að hæstv. ríkisstjórn hafi gert mistök í raun frá upphafi við úthlutun leyfanna í þessari grein og hafi gert sér grein fyrir því að hún hafi farið í þá vegferð að úthluta að því er virðist ótímabundnum leyfum sem hún er núna að skerpa á. Það þykir mér í rauninni ákveðin frétt. Ég velti því einfaldlega fyrir mér hvort það væri ekki eðlilegt að reyna að takmarka frekar heimildirnar í dag með þeim hætti að taka einmitt af allan vafa um að þessi tímabinding sé raunverulega tímabinding því að staðan er í dag sú að í flestum þeim löndum sem eru í kringum okkur, Færeyjum, Írlandi, Skotlandi, og í Chile, Nýja-Sjálandi, þá eru tímabundnar heimildir. Síðan vitum við öll hér inni að þrátt fyrir að það sé vilji til að skapa fyrirsjáanleika í þessari grein þá er miklu eðlilegra að gera það með þeim hætti að ef það er tímabinding til staðar og fyrirtækin sannarlega að standa sig vel þá fái þau endurnýjuð þau leyfi í staðinn fyrir að snúa öllu á haus varðandi prinsipp í þessari atvinnugrein og segja að umrædd leyfi (Forseti hringir.) séu ótímabundin og ætla svo að svipta þau leyfunum síðar, sem við vitum að mun reynast mjög erfitt.