154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

rekstrarleyfi til fiskeldisfyrirtækja.

[15:19]
Horfa

matvælaráðherra (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Eins og ég sagði hér áðan þá í rauninni virka lögin í dag með þeim hætti að mjög erfitt er að bregðast við ef eitthvað ber út af í rekstrinum. Þessu viljum við reyna að breyta. Það gerir okkur rauninni frekar kleift að grípa inn í reksturinn ef rekstraraðilar uppfylla ekki markmið frumvarpsins þegar við tölum um sjálfbæra uppbyggingu. Við erum að tala um verndun villta laxastofnsins, vistkerfanna, dýravelferð o.s.frv. Þannig að ég held, virðulegi forseti, að við höfum engan áhuga á því að gefa afslátt af þessum markmiðum, burt séð frá því hvernig leyfisveitingum er háttað. Ég treysti því bara að þegar frumvarpið gengur til nefndar þá fái nefndin öll þau sjónarmið fram sem þurfa þykir og ef þetta er eitthvað sem nefndin telur sér ekki fært að klára þá kemur það bara í ljós. Ég tel að við séum að gera betur með því að gera þetta svona, þ.e. að ná betur utan um það sem við viljum ná utan um.