154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

aðgerðir varðandi strandsvæðaskipulag.

[15:20]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Brotalamirnar eru víða þegar kemur að sjókvíaeldi á Íslandi. Við skulum fara aðeins yfir þær helstu. Mannvirkjastofnun hunsar lögbundnar skyldur sínar til að gefa út byggingarleyfi árum saman þannig að allar þær kvíar sem eru við landið voru byggðar án byggingarleyfis. Matvælastofnun gefur út rekstrarleyfi þrátt fyrir að lögbundin byggingarleyfi liggi ekki fyrir. Siglingaöryggi má einnig víkja fyrir kvíunum þrátt fyrir eða kannski vegna þess að þrjár stofnanir bera ábyrgð á siglingaöryggi í kringum Ísland, en Vegagerðin, Landhelgisgæslan og Samgöngustofa eiga sameiginlega að tryggja siglingaöryggi í kringum landið, en samt eru sjókvíar leyfðar í trássi við alþjóðlegar skuldbindingar okkar varðandi siglingaöryggi með því að leyfa kvíar á stöðum sem skyggja á ljósgeisla frá vitum.

Forseti. Síðastliðið haust kom gríðarlegt umfang slysasleppinga berlega í ljós og norskir kafarar mættu á svæðið til að bjarga málunum. Þarna var ljóst að áhættumat Hafrannsóknastofnunar vegna erfðablöndunar gagnvart villta laxastofninum var ekki fullnægjandi og því þarf að gera nýtt mat. Og dæmin um skelfilega stjórnsýslu halda áfram og áfram í villta vestri sjókvíaeldis á Íslandi. Afsökunin fyrir þessari vanhæfni er að með sofandahættinum sé jafnvel verið að bjarga brothættum byggðum og því er allur afsláttur af lögum og reglum gefinn í leiðinni. Ríkisstjórnin er svo gersneydd hugmyndum til að efla blómlega byggð um land allt að hagsmunum náttúrunnar og framtíðarkynslóða er fórnað fyrir skammtímagróða norskra auðkýfinga.

Forseti. Þessi upptalning kann að hljóma eins og sería tvö af Verbúðinni en er því miður blákaldur veruleikinn í dag. Ég vil því spyrja hæstv. innviðaráðherra, Svandísi Svavarsdóttur: Er ekki ljóst að strandsvæðaskipulag forvera hennar í embætti er í fullkomnu uppnámi, skipulag sem komið hefur í ljós að stenst hvorki siglingalög, vitalög, fiskeldislög, fjarskiptalög, byggingarlög né lög um umhverfismat? Hvað hyggst hæstv. ráðherra gera til að bregðast við þessari grafalvarlegu stöðu?