154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

aðgerðir varðandi strandsvæðaskipulag.

[15:22]
Horfa

innviðaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það hefur sannarlega verið svo, eins og kemur fram í fyrirspurn hv. þingmanns, að margt hefur nú ekki beinlínis verið til fyrirmyndar í utanumhaldi lagareldis við Ísland enda var strax sett í gang vinna þegar ég tók sæti matvælaráðherra, annars vegar hjá Ríkisendurskoðun og hins vegar af hendi Boston Consulting Group sem var óskað eftir að skilaði vinnu um mögulega framtíðarsýn fyrir lagareldi á öllum sviðum. Það má eiginlega segja að það hafi verið alger samhljómur í þeirri vinnu sem þarna var innt af hendi, þ.e. að kerfið væri óskýrt, það væru ómarkvissir ferlar að því er varðar leyfisveitingar, stjórnsýslan væri ekki til fyrirmyndar o.s.frv., sem varð allt saman til þess að rétt þótti að fara að ábendingum Ríkisendurskoðunar og Boston Consulting Group í því að leggja grunn að nýrri heildarlöggjöf um lagareldi. Ég vænti þess að þingið muni fá frumvarp þess efnis á sitt borð núna alveg á næstu dögum. Hluti af því flækjustigi sem er sannarlega til umfjöllunar er nákvæmlega það að að hluta til er þarna um að ræða stofnanir sem heyra undir innviðaráðuneytið, eins og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sem gefur út tiltekin leyfi. En það er mikið umhugsunarefni hvernig skilvirkast er að tryggja þetta leyfisveitingaferli þannig að það sé í góðu jafnvægi, bæði við samfélög og umhverfi. En ég hafna því að hér sé um að ræða einhvers konar birtingarmynd hugmyndaleysis í byggðamálum. Ég bara bið þingmanninn um að sýna meiri hugkvæmni í sinni röksemdafærslu.