154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

aðgerðir varðandi strandsvæðaskipulag.

[15:25]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég verð að biðja hæstv. ráðherra um að svara spurningunni minni á móti og spyrja hana aftur hvernig hún hyggst bregðast við varðandi strandsvæðaskipulag sem forverar hennar komu á lappirnar, sem er í fullkomnu uppnámi eins og ég kom inn á. Það væri gott að heyra hvað hæstv. ráðherra ætlar að gera til að bregðast við vegna þess að ég heyrði engin orð þess efnis. Varðandi lagareldisfrumvarpið, vegna þess að hæstv. ráðherra minnist á það, þá hlýt ég að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað varð til þess að öllum helstu innihaldsatriðum þess frumvarps var hreinlega slátrað áður en því var útbýtt hér? Hvers vegna er ekki lengur hægt að taka rekstrarleyfið af fyrirtækjum sem lenda í ákveðnum hluta af slysasleppingum fyrr en eftir ég veit ekki hvað mörg skipti? Af hverju er búið að draga allar tennur úr frumvarpinu sem hæstv. ráðherra kom af stað? Eru það ráðherrastólaskiptin eða býr eitthvað annað þar að baki?