154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

lagning Sundabrautar.

[15:27]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Ég spyr nýskipaðan hæstv. innviðaráðherra um afstöðu til Sundabrautar. Nú hafa um nokkurt skeið farið fram rannsóknir til að undirbúa verkið. En hvenær telur hæstv. ráðherra að framkvæmdir geti farið af stað við Sundabraut, lagningu vegarins, byggingu mannvirkja? Hver er afstaða hæstv. ráðherra til þess hvernig beri að þvera Kleppsvíkina? Er ráðherrann hlynntur göngum eða brú? Hvaða aðferð telur hæstv. ráðherra besta þar? Einnig spyr ég út í fjármögnunina, hvort hæstv. ráðherra telji að hún muni koma eingöngu af samgönguáætlun, frá einkaaðilum eða einhvers konar blöndu ríkisrekstrar og einkaframkvæmdar. Loks spyr ég hvort hæstv. ráðherra hafi áhyggjur af því að framkvæmdir í veglínu Sundabrautar eða við veglínuna muni á einhvern hátt þvælast fyrir þessu verkefni og framgangi þess.