154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

lagning Sundabrautar.

[15:28]
Horfa

innviðaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Eins og kemur fram í máli hv. þingmanns þá er uppbygging Sundabrautar ein af lykilframkvæmdum í skipulags- og samgöngumálum hér á höfuðborgarsvæðinu og þar með í raun og veru fyrir landið allt. Hún skiptir afar miklu máli sem mikilvægur hluti af samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Þar sem hv. þingmaður nefnir hér sérstaklega hvort það sé farsælla að fara í göng eða brú og kallar beinlínis eftir mínum skoðunum á því máli þá vil ég segja að viðfangsefnið er í umhverfismatsferli og ég held að mikilvægt sé að sérfræðingar fái að leiða kosti mismunandi nálgana til lykta. Þegar umhverfismatinu lýkur, ef allt fer fram sem horfir, er gert ráð fyrir í þeim áætlunum sem nú eru á borðinu og hv. þingmaður þekkir væntanlega líka að framkvæmdin hefjist árið 2026 og að hægt verði að opna Sundabraut árið 2031. Það er verið að vinna þennan undirbúning í samtali við haghafa, við þá sem best þekkja til. Verkefnisstjórn og verkefnisstjóri eru að störfum og það er í raun og veru allt í þessu efni samkvæmt áætlun.