154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

lagning Sundabrautar.

[15:30]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Má þá skilja hæstv. ráðherra sem svo að áætlun fyrir 2026 um upphaf framkvæmda muni standast og að lokið verði við þetta 2031? Telur ekki hæstv. ráðherra tilefni til að reyna að flýta þessari áætlun í ljósi þess að unnið hefur verið að undirbúningi Sundabrautar um áratugaskeið og fyrir löngu staðið til að hefja framkvæmdirnar?

Auk þess ítreka ég spurningu til hæstv. ráðherra um þær framkvæmdir sem hafa verið í og við vegalínu Sundabrautarinnar: Munu þær trufla framgang verkefnisins á einhvern hátt að mati hæstv. ráðherra? Og fyrst tími gefst til, frú forseti, læt ég fylgja spurningu til hæstv. innviðaráðherra um hver muni fjármagna rekstur borgarlínunnar.