154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

staða Grindvíkinga.

[15:32]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að ræða hér stöðu Grindvíkinga. Í samráðshópnum um málefni þeirra var mikið rætt um þá Grindvíkinga sem ekki pössuðu innan rammans um uppkaup, ekki síst vegna skilyrðanna um lögheimili, en við vorum fullvissuð um að við móttöku umsókna yrðu umsækjendur alltaf látnir njóta vafans, svo sem vegna fyrstukaupaíbúða sem oft eru í útleigu á meðan ungt fólk býr í foreldrahúsum eða þar sem pör sem núna eru í sambúð áttu hvort sína íbúðina þegar þau fóru að búa en leigðu aðra, eða vegna aldraðra sem höfðu selt stóra húsið og minnkað við sig til að eiga eitthvað til elliáranna. Þess vegna eru gríðarleg vonbrigði að heyra hvernig tekist hefur til hjá fasteignafélaginu Þórkötlu þar sem við höfum heyrt af mörgum sem fallið hafa á milli skips og bryggju.

En svo er það meðferð umsókna. Í sakleysi mínu hélt ég að Grindvíkingar sem féllu innan rammans um lögheimili væru sjálfkrafa samþykktir en því miður er það alls ekki svo. Vegna þessa eru Grindvíkingar upp til hópa að lenda í gríðarlegum vandræðum og jafnvel að missa það húsnæði sem þeir hafa tryggt sér hafi þeim á annað borð tekist það, sem er alls ekki gefið. Missi fólkið húsnæðið er það komið á núllpunkt og baráttan um húsnæði harðnar því miður með hverjum deginum sem líður með tilheyrandi hækkunum. Þetta er gríðarlega erfið staða fyrir fólk sem fékk í fæstum tilfellum markaðsvirði fyrir heimilin sem það varð að flýja auk þess að vera komið á mun dýrari fasteignamarkað en það var á.

Á mótmælum Grindvíkinga á föstudaginn voru skilaboð til stjórnvalda skýr. Þeir gagnrýna harðlega vinnubrögð Þórkötlu og vilja meiri kraft í uppkaup húsnæðis strax. Þeir geta ekki beðið lengur og örvænting þeirra var allt að því áþreifanleg. Kerfið hefur yfirtekið samúðina og eins og við sem höfum lent í kerfinu vitum er samúð kerfisins nákvæmlega engin.

Einnig verður ekki hjá því komist að nefna stöðu þeirra sem voru í leiguhúsnæði í Grindavík sem og stöðu aldraðra og öryrkja sem þaðan flúðu, enda algengt að þeir hafi verið á leigumarkaði. Þetta fólk er í skelfilegri stöðu í dag. Á stjórnlausum leigumarkaði þar sem leigan hækkar stöðugt ráða mörg þeirra illa eða alls ekki við stöðuna. Þetta er óásættanlegt. Það er árið 2024. Hvað ætlar fjármálaráðherra að gera í málum Grindvíkinga?