154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

staða Grindvíkinga.

[15:35]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að staðan er mjög erfið hjá íbúum Grindavíkur, búandi við þá óvissu sem náttúruhamfarir kalla yfir og þær breytingar sem óhjákvæmilega verða á högum fólks. Eins og hv. þingmaður veit þá höfum við auðvitað gert mjög margt til þess að koma til móts við íbúana af ýmsu tagi. Ég nefni húsnæðisstuðning sem er enn til staðar og er verulegur. Við fórum í að kaupa húsnæði og leigja í gegnum bæði Bríeti og Bjarg kom að því, þannig að þar eru sennilega um 250–260 fjölskyldur sem hafa fengið skjól. Síðustu íbúðirnar á leigumarkaðnum hafa reyndar ekki gengið út, hafa kannski verið of stórar, á óhentugum stað og ekki hentað einstaklingum.

Varðandi Þórkötlu þá horfir þar mjög margt til betri vegar. Það voru og eru um 18 lánveitendur sem koma að veðum í húsnæði þeirra sem hafa óskað eftir að húsin þeirra verði keypt. Það hefur gengið hægar að semja við þá aðila heldur en til stóð af ýmsum ástæðum. Mér skilst að það liggi fyrir og hafi klárast núna um helgina. Það voru um 115 sem fengu svar frá Þórkötlu á fimmtudaginn og þess er vænst að um 150 geti fengið slíkt svar í þessari viku. Ég vona að þeir byrjunarörðugleikar og tækniörðugleikar séu að baki — þetta er auðvitað flókið. Þetta er í fyrsta skipti sem við getum gengið frá kaupsamningum stafrænt og svo erum við búin að breyta þinglýsingum. Þannig að hlutirnir geta farið að ganga býsna hratt fyrir sig og ég hef væntingar um það. Varðandi það að það séu einhverjir sem hafa fallið á milli skips og bryggju þá hef ég trú á því að það verði skoðað sérstaklega en mér er ekki kunnugt um þau dæmi frá Þórkötlu.