154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

staða Grindvíkinga.

[15:37]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka ráðherra fyrir svörin. En eigendur lítilla fyrirtækja í Grindavík bíða einnig svara frá stjórnvöldum og hjá því verður ekki litið að rekstur lítilla fyrirtækja fer mjög oft saman við rekstur heimila, í þeim vinna oft bæði hjónin, auk þess sem fjárfesting í húsnæði og tækjum hefur oft verið tekin af heimilisrekstri. Þannig eru oft miklar fjárfestingar undir og lán sem detta úr frystingu hjá bönkunum um miðjan júní. Ofan á það að hafa misst heimili sín hafa þessi Grindvíkingar einnig misst alla sína framfærslu og sitja uppi með verðlausar eignir. Öll vona þau að þau geti snúið aftur til Grindavíkur en enginn veit hvenær það verður. Þau geta því ekki lengur lifað við óvissuna og þurfa eðlilega að skapa sér framtíð eftir bestu getu, sennilega á nýjum stað, a.m.k. þangað til Grindavík er byggileg á ný. Samkvæmt þeirra skilningi er von á frumvarpi sem mun hafa áhrif á þeirra hagi fyrir þinglok. Kröfur þeirra eru hógværar en þau kalla eftir því að úrræði verði kynnt fyrir þinglok sem miði að því að hjálpa fyrirtækjum sem geta og vilja starfa í Grindavík og fyrirtækjum sem þurfa að flytja til að geta haldið starfsemi sinni áfram og að fyrirtæki sem sjá hvorki rekstrargrundvöll í Grindavík né utan Grindavíkur geti sótt (Forseti hringir.) um uppkaup á atvinnuhúsnæði. Mun fjármálaráðherra sjá til þess að kröfum eigenda lítilla fyrirtækja í Grindavík verði mætt í fyrirhuguðu frumvarpi?