154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

staða Grindvíkinga.

[15:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmaður væntanlega veit, þar sem málin hafa verið talsvert til umfjöllunar bæði hér í þingsal og í nefndum, þá er að störfum hópur undir forystu forsætisráðuneytisins, með aðkomu fjögurra ráðuneyta. Hann hefur fengið utanaðkomandi aðila til að greina þessa augljóslega mjög svo erfiðu stöðu fyrirtækjanna, ekki síður en fólksins sem hefur aðsetur í Grindavík. Það er niðurstöðu að vænta frá þeim hópi á næstu vikum. Ég þori ekki að fullyrða að það verði fyrr en einhvern tímann í byrjun maí, held ég að ég hafi fengið síðustu upplýsingar um. Þá munum við fara yfir það hvaða sviðsmyndir sá hópur hefur sett á borðið. Staðan er auðvitað mjög flókin. Þetta er fjölbreyttur hópur fyrirtækja. Þetta eru ýmis fyrirtæki sem hafa sinnt þjónustu við fólk í Grindavík og hafa augljóslega engan starfsgrundvöll í augnablikinu, sem og önnur fyrirtæki sem ýmist eru í framleiðslu eða öðru. (Forseti hringir.) Þannig að staðan er mjög ólík og það þarf að greina hana vel. Sú vinna stendur yfir og ég veit að þó að öllum finnist ganga hægt er alla vega verið á fullu í þeirri vinnu.