154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

aðgerðir fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki í Grindavík.

[15:40]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Mig langar að halda áfram á þeirri leið sem hv. þm. Ásthildur Lóa Þórsdóttir var og fara aðeins yfir stöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja í Grindavík. Bæjarstjórn Grindavíkur er búin að boða þingmenn kjördæmisins til fundar á morgun. Ég vænti þess að hæstv. fjármálaráðherra hafi einnig fengið póst eins og aðrir þingmenn þar sem gerð er krafa um að við mætum á fund sem á að halda í Grindavík. Í því bréfi sem okkur var sent er fólk að lýsa hreinni örvæntingu, að það ráði illa við stöðuna eins og hún er. Eigið fé fyrirtækjanna er að étast upp. Þrátt fyrir að rekstrarstuðningur hafi komið þá hefur hann kannski bara dugað fyrir launum og ekki meira en það. En öll þessi fyrirtæki eru skuldsett og þurfa að standa skil á afborgunum og vöxtum. Þau hafa ekki bara einu sinni heldur margsinnis lýst þeirri kröfu sinni að koma þurfi til móts við þessi fyrirtæki, annaðhvort að hjálpa þeim að færa sig um set eða að hefja starfsemi á nýjan leik í Grindavík þar sem aðstæður leyfa, eða þá hreinlega að kaupa upp húsnæðið til að fólk geti farið að búa til verðmæti á öðrum stöðum. Hér er nefnt að það sé jú kominn til starfa stýrihópur ráðuneyta, en fólk bíður orðið bara örvinglað. Ætli það sé ekki komið u.þ.b. hálft ár frá því að þessar hamfarir hófust og þessir aðilar hafa ekki séð neina lausn. Ráðherra nefnir hér að það sé að störfum stýrihópur. Ég spyr hæstv. ráðherra: Ætlar þessi stýrihópur að taka tillit til óska eigenda eða forsvarsmanna þessara fyrirtækja í Grindavík?