154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

aðgerðir fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki í Grindavík.

[15:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að ofan í það að missa heimili sitt og þurfa að flytja að heiman, og komnir núna sex mánuðir, þá bætist það auðvitað við í tilfelli þeirra sem eiga þessi litlu og meðalstóru fyrirtæki að það er fullkomin óvissa uppi um hvort og hvernig hægt sé að reka þau. Hv. þingmaður nefnir það hér að þau séu skuldsett og það er sjálfsagt allur gangur á því í hvaða mæli það er. Á sama hátt er nokkuð augljóst að þeir sem hafa veitt veð og lán í þeim fyrirtækjum hljóta að þurfa að meta sína áhættu og sína ábyrgð á sama hátt og þá með þeim eigendum sem þar eru. Ég held að það sé mikilvægt að það verði hluti af þessu ferli að menn fari í að reyna að greina stöðuna. Hún er það ólík að hún er nánast ólík frá einu fyrirtæki til annars.

Ég nefndi það í fyrri fyrirspurn og get endurtekið það í þessari að sá hópur sem hefur verið að störfum undir forystu forsætisráðuneytisins, og síðan er það atvinnuvegaráðuneytið og fjármálaráðuneytið hefur komið að því, fékk til sín utanaðkomandi aðila til að bæta möguleikana á að greina og geta unnið þetta hraðar. Ég veit að fólki finnst það ganga hægt og ég hef fullan skilning á því en þetta er flókin vinna. Ég vænti þess að við fáum niðurstöður frá þessum hópi fljótlega. Ég á ekki von á því í þessari viku en hugsanlega gætum við farið að sjá eitthvað inn í það í þeirri næstu og þá gætum við farið að meta það til hvaða hugsanlegra aðgerða er hægt að grípa. En ég ítreka að þeir sem hafa veitt veð og lán til þessara fyrirtækja hljóta auðvitað fyrst að þurfa líka að meta sína áhættu og sína ábyrgð með eigendum fyrirtækjanna.