154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

leyfi til hvalveiða.

[15:48]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S):

Frú forseti. Hvalveiðar eru lögmæt atvinnugrein hér á landi og byggja á vísindalegri ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Gildir sú ráðgjöf út árið 2025 og kveður á um veiðar á rúmlega 200 dýrum árlega. Nú liggur fyrir að í janúar sótti fyrirtæki sem stundað hefur hvalveiðar um langt árabil um áframhaldandi leyfi til veiða á langreyðum. Það liggur líka fyrir, frú forseti, að erindinu hefur nú í lok apríl enn ekki verið svarað. Öllum má vera ljóst og hæstv. ráðherra má vera ljóst að veiðitímabilið er handan við hornið. Ég verð því að spyrja, frú forseti, hæstv. ráðherra að því: Hvað skýrir þessa stjórnsýslu? Hvað skýrir það að erindinu hefur enn ekki verið svarað og umsóknin ekki afgreidd til þess að leyfa hvalveiðar við strendur landsins árið 2024? Það er líka rétt að spyrja í ljósi þess að hvalveiðar voru stundaðar hér í fyrra, árið 2023, hvort eitthvað hafi breyst í löggjöfinni eða regluverkinu sem gildir um hvalveiðar frá því síðasta haust.