154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

leyfi til hvalveiða.

[15:49]
Horfa

matvælaráðherra (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Eins og ég hef sagt áður úr þessum ræðustól þá eru til meðferðar í ráðuneytinu tvær umsóknir um leyfi, önnur til veiða á langreyðum og hin til veiða á hrefnu. Það er margt í þessu sem þarf að huga að. Auk þess að taka afstöðu til þessara fyrirliggjandi umsókna þarf líka að gefa út viðauka við reglugerð um hvalveiðar um leyfilegt heildarveiðimagn ársins, af því að hv. þingmaður kom inn á það. Þessi viðauki byggir á ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar sem rann út núna um áramótin á sama tíma og þau leyfi sem þá runnu út. Það er í rauninni margt sem verið er að draga saman. Ég vil líka bara nefna það hér að það voru auðvitað veikindi, eins og við þekkjum, hjá hæstv. fyrrverandi ráðherra og síðan er ég nýkomin inn, búin að vera viku í embætti. Ég hef ákveðið að gefa mér tíma til að fara vel yfir þetta mál, enda er það eins og við þekkjum og engin launung um það að það eru miklar og skiptar skoðanir um það mál. Það breytir því ekki að það er svo sem enginn ákveðinn málsmeðferðartími í lögunum um hvalveiðar, en það er alltaf gott um leið og maður tekur sér góðan tíma til að fara yfir erfið mál að hafa hann ekki óþarflega langan. Ég hef sagt að ég hyggist reyna að hraða því að fá til mín öll þau gögn sem ég tel að ég þurfi til að taka ákvörðun um þetta þannig að vel megi vera og ég vonast til þess að það gerist bara núna tiltölulega fljótlega. Þó að ég geti ekki lofað því nákvæmlega, set ekki fram hér dagsetningu um það hvenær það verður, þá ætla ég að reyna og vil temja mér þá stjórnsýslu að afgreiða mál eins hratt og ég mögulega get.