154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

leyfi til hvalveiða.

[15:52]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég trúi því og treysti að hæstv. ráðherra vilji vanda til verka, vilji virða stjórnsýslulög og fara að lögum í einu og öllu. Það er þá líka ástæða til að spyrja, af því að hæstv. ráðherra kom inn á málstímann, aðeins nánar út í hvernig ráðherra telur málshraðareglu stjórnsýsluréttarins vera virta í þessu tiltekna máli. Það er þannig að málshraðareglan er grundvallarregla til að tryggja réttindi borgaranna gagnvart stjórnvöldum og til að fyrirbyggja að stjórnvöld valdi tjóni með ómálefnalegum töfum. Ráðherra verður því að taka tillit til aðstæðna og gæta að því að vega ekki að réttindum og hagsmunum fólks og samfélags.

Ég vil líka að lokum, frú forseti, spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé ekki alveg ljóst að atvinna og hagsmunir fjölda fólks eru í húfi, að nærsamfélaginu, auk fyrirtækja sem þjónusta hvalveiðifyrirtækin, muni mikið (Forseti hringir.) um að starfsemi þessi fái að halda áfram í sumar.