154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

leyfi til hvalveiða.

[15:53]
Horfa

matvælaráðherra (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Bara svo ég segi það aftur þá eru stjórnsýslulögin til staðar og það er mikilvægt að fylgja þeim í hvívetna eins og hægt er. Ég ítreka að það er svo sem ekkert í lögum um hvalveiðar sem kveður á um einhvern tiltekinn tíma þegar verið er að fara yfir þessi mál. En ég vil kannski bara árétta það hér af því að mér finnst það líka skipta máli — og það er auðvitað snúið fyrir nýjan ráðherra sem er að setja sig inn í þessi mál, hafandi bara horft á þau utan frá, í gegnum samtalið sem bæði hefur átt sér stað hér og í samfélaginu — að það er búið að skipa starfshóp um framtíð hvalveiða, þ.e. valkostagreiningu um mögulegar leiðir til úrbóta og stefnumótunar. Þar er undir að taka mið af áframhaldandi veiðum, takmörkun, banni eða veiðum til framtíðar. Þessum hópi veitir forystu Þorgeir Örlygsson, fyrrverandi hæstaréttardómari. Ég held að það sé bara mikilvægt líka fyrir mig að átta mig á því, þó að það eigi ekki við um akkúrat það sem koma skal (Forseti hringir.) núna fyrir sumarið, að við náum betur utan um greinina en mér finnst alla vega málin standa í dag, því að það er ekkert launungarmál (Forseti hringir.) að lögin eru gömul og þau eru ekki að mínu mati nægjanlega skýr.