154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

Störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir því um daginn að hæstv. forsætisráðherra sagðist vera reiðubúinn til þess að halda vinnu vegna breytinga á stjórnarskrá áfram. Við formennirnir höfum setið yfir þessu núna á sjöunda ár og það hefur margt þokast áfram, ekki síst vegna eindrægni fyrrum forsætisráðherra í því að reyna að koma skynsamlegum breytingum í gegn á stjórnarskránni. En síðan var aukasetning sem fylgdi og þar sagði hæstv. ráðherra: Ja, við þurfum að gera þetta þannig að það verði sátt um þessar breytingar. Málið er hins vegar að við höfum náð alveg ágætri sátt um breytingar á forsetakaflanum, á íslenskuákvæði, á umhverfisákvæði og það er hægt að afgreiða það strax. En þegar kemur að auðlindaákvæði stendur hnífurinn í kúnni. Þar hefur ekki mátt hrófla við neinu. Þar má ekki ræða það að tryggja þjóðinni raunverulega rétt sinn yfir þjóðareignum, yfir auðlindum, með því að setja skýrt ákvæði í stjórnarskrá. Þá segir Sjálfstæðisflokkurinn stopp.

Ég vil hvetja hér allt þingið til að sameinast með okkur í Viðreisn og ég bind vonir við að bæði Vinstri græn og Framsókn og fleiri flokkar geti sameinast um auðlindaákvæði í stjórnarskrá sem tryggir sérstaklega rétt þjóðarinnar yfir auðlindum í hennar eigu. Þannig er það ekki í dag. Hvað gerist núna á síðustu tveimur vikum? Þá erum við að sjá eiginlega svörtustu myndina af sérhagsmunagæslu sem hægt er að sjá. Við munum hvernig farið var í þá vegferð núna um daginn að kippa samkeppnislögum úr sambandi til að valta yfir neytendur en moka frekar undir milliliði: 1–0 fyrir sérhagsmunagæslu í landinu, 2–0 núna þegar við erum að fara að ræða um lagareldið á eftir þar sem á að breyta úr því að veita tímabundið leyfi til fiskeldis yfir í ótímabundið. Það er svakalegt að það skuli vera boðið upp á þetta núna ítrekað, að ganga á almannahagsmuni í þágu sérhagsmuna. Það er þetta sem ríkisstjórnin er að bjóða upp á og það er við þessu sem við í þinginu verðum að segja: Stopp, hingað og ekki lengra.

Ég vil hvetja þingheim (Forseti hringir.) til að sameinast um skynsamlegar breytingar á stjórnarskránni, já, um ýmsa þætti sem er sátt um. (Forseti hringir.) En við áttum okkur á því að Sjálfstæðisflokkurinn mun aldrei samþykkja almennilegt auðlindaákvæði sem hald er í fyrir þjóðina og við verðum að berjast fyrir því (Forseti hringir.) að ná slíku ákvæði í gegn.

(Forseti (OH): Forseti minnir hv. þingmann á að virða ræðutímann.)