154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

Störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að fá að nota þetta tækifæri til að tala um alþjóðastarf, eins og ég geri oft undir þessum lið. Það er einstaklega ánægjulegt þegar manni tekst að sinna alþjóðastarfi án þess að fara af landi brott. Ég hef notið þess núna bæði í dag og í gær að taka þátt í lýðræðishátíð Úkraínu. Þar er sem sagt verið að halda lýðræðishátíð í fyrsta skipti. Það er gert að norrænni fyrirmynd enda eru lýðræðishátíðir á Norðurlöndunum og reyndar líka í Eystrasaltsríkjunum vel þekktar. Ég held reyndar að við mættum öll leggja okkur betur fram við lýðræðishátíðina hér á Íslandi, fund fólksins sem þó er haldinn reglulega. Ég tók þátt í þessari lýðræðishátíð sem forseti Norðurlandaráðs og í dag var jafnframt í pallborði með mér Bjarni Jónsson, hv. þingmaður og fulltrúi í utanríkismálanefnd. Það var áhugavert í dag að ræða um áherslur og menningu tengt stríðsátökum. En við þekkjum það hvernig Rússar hafa með markvissum hætti ráðist á menningarlega mikilvægar byggingar og innviði í Rússlandi, hvort sem það eru kirkjur eða menningarmiðstöðvar, jafnvel tekið börn af heimili sínu og reynt að telja fólki trú um að það sé ekki af úkraínskum uppruna og að úkraínska sé ekki þeirra tungumál. Það vekur okkur til umhugsunar um það hversu mikilvægur hluti menningin er af okkur, bæði sem einstaklingum en ekki síður sem þjóð. Það var líka ánægjulegt að við vorum að afgreiða úr allsherjar- og menntamálanefnd í dag þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun í íslenskri tungu sem kemur hér til umfjöllunar vonandi í næstu viku og í dag ræðum við fleiri mál tengd menningu. Ég held að við áttum okkur ekki oft á því hversu mikilvæg menningin er í þessum samanburði og það er gaman að geta hvatt Úkraínumenn áfram líka með því að kynna sér úkraínska menningu, kaupa úkraínska hönnun og taka þannig þátt í baráttu þeirra fyrir lýðræði og frelsi.