154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

Störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Eva Dögg Davíðsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Undanfarið hefur borið mikið á umræðu um aukna orkuþörf í ljósi orkuskipta. Til þess að við getum búið við orkuöryggi þarf að nýta orkuna betur og auka orkusparnað. Samkvæmt skýrslu sem unnin var af danskri ráðgjafarstofu fyrir Landsvirkjun, Orkustofnun og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið árið 2023, um tækifæri til bættrar orkunýtni á Íslandi, kemur fram að tækifæri til bættrar orkunýtni hérlendis eru um 1.500 GWst á ári eða sem nemur um 8% af núverandi raforkunotkun þjóðarinnar — næg orka til að sjá öllum bílaflota Íslands fyrir rafmagni í heilt ár og meira til. Af þessu eru 356 GWst sem hægt er að spara án tækninýjunga eða stórtækra aðgerða. Það er um helmingur orkuvinnslugetu Hvammsvirkjunar. Æskilegast er auðvitað að stórnotendur sem nota um 80% af orku landsins hafi hvata til að draga úr notkun. Af stórnotendum eru álverin langstærstu raforkunotendurnir og vegur orkusparnaður hjá þeim þyngst — dýrmæt orka sem nýst getur í orkuskiptin.

Forseti. Ég stend ekki hér og held því fram að hér á landi sé ekki þörf fyrir aukna orku á næstu árum sé okkur einhver alvara með orkuskiptin og skuldbindingar okkar í loftslagsmálum. Ég tel hins vegar það vera algjört grundvallaratriði að við forgangsröðum orkunni okkar. Loftslagsmál snúast um meira en orkuskipti. Það skiptir máli að sköpuð sé heildarsýn í orkumálum í þágu orkuskipta þar sem þörf og áherslur eru settar fram með skýrum hætti, framtíðarsýn sem tryggir að það ríki jafnvægi milli náttúruverndar og markmiða í orkuskiptum. Náttúran er nefnilega líka auðlind, auðlind sem þarf að taka mið af um leið og við forgangsröðum orku í þágu innlendra orkuskipta.