154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

Störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Nokkrir þingflokkar nýttu helgina vel. Einhverjir funduðu utan við borgarmörkin og aðrir dönsuðu við Prettyboitjokko. Skilaboð Samfylkingarinnar á Laugarbakka vöktu athygli mína en hún telur landsmenn hafa miklar væntingar til þess að hún komi þeim til bjargar, rífi hlutina í gang og rétti af ranga stefnu Íslands. Þessir landsmenn hljóta í það minnsta að búa annars staðar en í Reykjavík. Við sem þar búum þekkjum vel ferilskrá Samfylkingarinnar sem hefur stýrt borginni í áratugi. Við borgum himinhá fasteignagjöld en fáum ekki leikskólapláss fyrir börnin okkar. Við erum með yfirfullar ruslatunnur þrátt fyrir hlutastarf við flokkun og við finnum ekki samastað í borginni á yfirfullum og rándýrum þéttingarreitum enda flýja borgarbúar unnvörpum í nágrannasveitarfélögin og lengra. Við sitjum föst í bílaumferð á hverjum degi og við búum í höfuðborginni sem er á hausnum en fær hvergi lán. Samanburðurinn er ekki góður við önnur sveitarfélög. Staða Íslands er hins vegar frábær í alþjóðlegum samanburði. Ísland er meðal ríkustu landa heimsins og eitt öruggasta land í heimi. Hér er einhver mesti jöfnuður sem fyrirfinnst og Íslendingar eru meðal hamingjusömustu þjóða heims og lifa einna lengst. Hér er kynjajafnrétti mest í heimi og mesta atvinnuþátttaka kvenna. Á Íslandi er atvinnuleysi einna minnst og mest aðgengi að atvinnutækifærum. Hér er einhver mesti kaupmáttur launa á byggðu bóli og líklega besta lífeyriskerfi heims. Á Íslandi er hæsta hlutfall endurnýjanlegrar orku og hér er hreinasta loftið. Að vera fremst í langflestum samanburði við önnur lönd þýðir samt ekki að það megi ekki gera betur. Þá skiptir máli að treysta þeim sem hafa sýnt fram á árangur. Það væri nær að Samfylkingin lofaði Reykvíkingum að rífa hlutina í gang og koma borginni aftur á rétta braut. Þar hefur Samfylkingin umboð og tækifæri, ekki í framtíðinni heldur núna.