154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

Störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S):

Frú forseti. Tilfellum um mygluskaða í húsnæði hefur fjölgað mikið á síðustu árum og samfélagslegur kostnaður vegna myglu í húsnæði nemur milljörðum króna árlega og heilsutjón er síðan ekki hægt að meta til fjár. Eitt af stóru tilfellunum þar sem mygla hefur greinst eru byggingar Landspítalans. Fyrir þremur árum lagði ég fram skriflega fyrirspurn til heilbrigðisráðherra um myglu í húsnæði Landspítalans og í svarinu kom fram að mygla hefur fundist í 44 byggingum eða álmum á vegum spítalans. Þetta er mjög hátt hlutfall. Einnig hefur komið fram að margir starfsmenn starfa í byggingum þar sem komið hafði upp rakavandamál. Ljóst má vera að verkefnið að uppræta myglu í húsnæði Landspítalans er stórt og það er brýnt. Ég vil beina hér sjónum sérstaklega að kvennadeildinni. Þar hefur verið viðvarandi mygluvandamál um árabil og nýlega bárust fréttir af því að mygla er þar mun meiri en talið var í fyrstu. Töluverð langtímaveikindi eru meðal starfsmanna sem rekja má til myglu og skjólstæðingar kvennadeildar sem eru með mygluóþol eiga erfitt um vik að dvelja í húsinu vegna myglunnar. Dæmi eru um að starfsmenn geti ekki snúið aftur til vinnu eins og staðan er núna. Því má ekki gleyma að það munar um hvern starfsmann á kvennadeild þar sem mikill mannauður er. Sónardeildin var flutt úr kvennadeildarhúsinu vegna myglu í nýtt húsnæði í Skógarhlíð og starfsmenn finna þar mikinn mun til hins betra hvað varðar heilsufar eftir þann flutning. Aðra starfsemi virðist erfitt að flytja meðan á viðgerð stendur með tilheyrandi áhættu á frekara heilsutjóni hjá starfsfólki vegna heilsuspillandi umhverfis sem eykst við framkvæmdir, m.a. í formi örveiruefna myglunnar í andrúmslofti. Húsnæði kvennadeildar var ekki hannað fyrir þá starfsemi sem fer fram í dag. Starfsemi hefur vaxið mikið á undanförnum árum og er farið að þrengja að henni. Ofan á þetta bætist síðan þessi alvarlega staða vegna myglu.

Frú forseti. Það vekur óneitanlega upp spurningar hvers vegna ekki var gert ráð fyrir flutningi kvennadeildarinnar í hinn nýja Landspítala og það voru mikil mistök.