154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

Störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Nýlega var stolið um 30 millj. kr. frá öryggisvörðum sem voru að safna spilakassafé í Hamraborg í Kópavogi, fé sem spilafíklar hafa dælt í kassann yfir, hvað? Eina helgi. Hverjir eru aðalspilafíklarnir í þessu máli? Er það ekki Rauði kross Íslands, Landsbjörg og Háskóli Íslands? Er verið að hjálpa fólki sem er í erfiðum aðstæðum hjá Rauða krossinum með fjármagni úr spilakössum? Já. Er verið að bjarga fólki úr lífsháska með fjármunum spilafíkla? Já. Er verið að mennta fólk í Háskóla Íslands um siðfræði í húsnæði sem er fjármagnað með fé úr spilakössum frá spilafíklum? Já. Yfirgnæfandi meiri hluti almennings er á móti spilakössum og vill ekki fjárhættuspilamennsku yfir höfuð og vill að hún sé bönnuð hér á landi.

Dómsmálaráðherra hefur ekki á dagskrá hjá sér að banna spilakassa og það þrátt fyrir að þar sé einnig grunur um stórfellt peningaþvætti. Það kom skýrt fram hjá henni í andsvörum við mig hér í þessum ræðustóli í gær. Fjölskylduharmleikur á bak við spilafíkn, foreldrar, einstæðingar, fjölskyldur með börn, afar, ömmur — allt undir. 4 milljarða kr. hagnaður og af því fer 40% í rekstur eða 1,6 milljarðar.

„Ég stal því fyrst,“ segir í góðri grein frá Ögmundi Jónassyni í sunnudagsblaði Morgunblaðsins núna um helgina. Já, hver stal því fyrst? Hverjir eru tryggðir fyrir því að tapa ekki á spilakassafíkninni og hverjir tapa? Hvers vegna sér ríkisstjórnin ekki um fjármögnun hjá Rauða krossinum og Landsbjörgu og Háskóla Íslands og losar þau við þessa spilafíkn sem er ekkert annað en fjársjúkir spilafíklar en fulltryggðir gegn þjófnaði, ólíkt þeim sem þeir féfletta. Eigum við ekki bara að banna spilakassana núna strax? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)