154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

Störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Herra forseti. Viðreisn hélt opinn fund á Selfossi í gær. Fundurinn var vel sóttur en það sem vakti kannski mesta athygli var hversu margir lýstu verulegum áhyggjum af afkomu sinni. Þær áhyggjur sneru fyrst og fremst að mikilli hækkun á afborgunum af lánum en einnig að löngum biðlistum eftir heilbrigðisþjónustu sem virðast bara lengjast. Þegar maður mátar þessi skilaboð við framkomna fjármálaáætlun er ekki hægt að sjá að hún hjálpi til við að draga úr áhyggjum fólks, því miður. Það vakti strax athygli að í fjármálaáætlun er gert ráð fyrir 100 milljarða hallarekstri á næstu þremur árum en síðan einhverjum afgangi næstu tvö árin þar á eftir. Þess vegna verður það verkefni nýrrar ríkisstjórnar að snúa þessari stöðu við. Auðvitað vekur athygli að þetta sé niðurstaðan; átta ár af hallarekstri hjá ríkisstjórn sem stærir sig endalaust af hagvextinum. Hverri krónu er eytt, eins og segir í kvæðinu Rónanum eftir Magnús Eiríksson. Sukkið heldur áfram. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur birt sína spá sem er í engu samræmi við fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Áætlun AGS gerir ráð fyrir halla frá 76 milljörðum upp í 95 milljarða á hverju ári á tíma fjármálaáætlunar. Samtals gerir AGS ráð fyrir að hallinn verði 533 milljarðar á tímabilinu. Munurinn á milli ríkisstjórnarinnar og AGS er því 452 milljarðar. Þegar um er að ræða þetta mikinn mun hlýtur það að kalla á skýringar. Ríkisstjórnin talar um afkomubætandi aðgerðir sem eru ekki útfærðar. Þær þýða væntanlega að annaðhvort verði dregið úr þjónustu eða skattar hækkaðir.

Virðulegi forseti. Það er því ekki von á góðu þegar ekki var einu sinni hægt að útfæra það í fjármálaáætlun með hvaða hætti kjarasamningar verði fjármagnaðir.