154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

Störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ætli það finnist berskjaldaðri hópur í samfélaginu en fólk sem er þolendur mansals? Nú eru sjö vikur liðnar frá aðgerðum lögreglu þar sem handtökur fóru fram og gerðar voru aðgerðir á veitingastöðum hér á landi vegna rökstudds gruns um vinnumansal. Til ætlaðra þolenda voru gefin út skýr skilaboð um að framtíð þeirra á Íslandi yrði tryggð. Það var beðið eftir útfærslunni. Hún kom núna í apríl, fyrir líklega tíu dögum. Það kemur fram í upplýsingum frá Alþýðusambandi Íslands að sá hluti hópsins sem ekki er kominn með nýtt starf að óbreyttu fái svokallað umþóttunarleyfi fyrir þolendur mansals. Það þýðir að þeim hluta hópsins sem ekki verður kominn með nýtt starf 15. maí er gefinn kostur á að fá verri kjör, verra leyfi heldur en þau höfðu áður og í einhverjum tilfellum eru fyrirhugaðar fjölskyldusameiningar í uppnámi. Það er ástæða til þess, forseti, að vekja athygli á þessu hér og minna á ályktun miðstjórnar ASÍ frá 20. mars síðastliðnum en þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Stjórnvöld eyði umsvifalaust allri óvissu um framtíð ætlaðra þolenda í því máli sem nú er til rannsóknar, sérstaklega hvað varðar dvalar- og atvinnuleyfi þeirra.

Úrræði sem eiga að samhæfa þjónustu við þolendur verði styrkt til muna og til frambúðar.“

Ég vil ljúka þessu máli mínu hér, forseti, með því að ítreka stuðning Samfylkingarinnar við bætt úrræði fyrir þolendur mansals. Það þarf að auka heimildir og það þarf að setja í lög bann við nauðungarvinnu með skýrum refsiákvæðum.