154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

Störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegi forseti. Okkur verður tíðrætt um það sem betur mætti fara. Ég gerði mér sérstaka ferð um helgina til að heimsækja vini á ýmsum aldri sem búa inni á dvalarheimilum eða sjúkrastofnunum eða eru upp á heilsugæsluna komnir. Ég verð að segja að þó að mjög mikið sé rætt um það að heilbrigðiskerfið okkar sé í molum þá ætla ég að halda því fram eftir samtöl mín við þá sem ég hitti um helgina að við megum þakka fyrir það sem við höfum og eigum að vera sérstaklega jákvæð gagnvart þeim hópi fólks sem helgar sig störfum á vettvangi heilbrigðismála því að aðstaðan sem hann býr við er ekki alltaf til fyrirmyndar. Loftgæðin á gamla Landspítalanum við Hringbraut eru ekki endilega eitthvað sem maður myndi sætta sig við sjálfur eða sækjast eftir. Við eigum að tala upp og klappa upp heilbrigðisstéttina okkar. Það er ekki hennar að afsaka það að hér hefur fjölgað óheyrilega fólki sem kallar á þjónustu og við höfum ekki náð að bregðast nógu hratt við því.

Sama gildir um kennarastéttina. Talað er um að menntakerfið sé í molum og menn geti ekki lært að lesa lengur. Það er bara fullt af frábæru fólki sem sinnir kennslu og starfar á þessum vettvangi. Ég legg til að við klöppum fyrir því og tölum það fólk upp því að það er að gera sitt besta og ræður ekki við það að hér hafi fjölgað stórkostlega fólki sem ekki er með grunn í okkar germönsku málum eða tekur tíma að læra þau. Sama er með löggæsluna. Mikið álag er á henni sem ekki er sambærilegt við það sem var fyrir kannski 10–15 árum. Við eigum að tala stéttirnar upp um leið og við erum að reyna að bæta úr því sem þarf að gefa í. Við skulum gæta þess að tala ekki þrótt og kjark úr fólkinu sem er að gera sitt allra besta í okkar þágu.