154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

Störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Við tölum ekki nógu mikið um hákarla í þessum sal. Staðan er þessi: Hákarlafyrirtæki eru með skotleyfi á neytendur í núverandi lagaumhverfi. Ísland er kjörlendi fyrir smálánafyrirtæki sem notfæra sér neyð fólks, sem notfæra sér og græða á þeirri stöðu að fleiri og fleiri heimili hafa átt erfitt með að ná endum saman í tíð þessarar ríkisstjórnar sem hefur misst efnahagsmálin gersamlega úr böndunum eins og kristallast í mikilli og þrálátri verðbólgu og einhverjum hæstu vöxtum í hinum vestræna heimi. Þá grípur fólk til örþrifaráða og hákarlarnir notfæra sér það. Hér voru sett innheimtulög árið 2008 og í kjölfarið reglugerð um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar, mikilvæg skref í rétta átt, en þessar reglur eru komnar til ára sinna og duga ekki til að verja neytendur gegn ósanngjörnum innheimtuaðferðum og smálánafyrirtækin komast mjög auðveldlega í kringum þessar reglur. Segjum að einstaklingur taki 60.000 kr. lán. Þá getur fyrirtækið skipt slíkri kröfu upp í fimm sjálfstæðar kröfur, rukkað svo fyrir sendingu á innheimtubréfi fyrir hverja einustu kröfu, svo fyrir sendingu milliinnheimtubréfs, fyrir símtal, fyrir skriflegt samkomulag um greiðslu og ef krafan endar svo í löginnheimtu bætast tugir þúsunda við til viðbótar þannig að hjá fólki í greiðsluerfiðleikum þá getur kannski 60.000 kr. lán endað með innheimtukostnaði upp á hátt í 200.000 kr. Þetta lætur stjórnarmeirihlutinn hér á Alþingi viðgangast með því að viðhalda úreltu regluverki sem verður að breyta sem allra fyrst. Þess vegna hef ég og við í þingflokki Samfylkingarinnar lagt fram lagafrumvarp um að samanlagður kostnaður við frum-, milli- og löginnheimtu verði aldrei hærri en höfuðstóll kröfunnar sem er til innheimtu hverju sinni. Þetta eru breytingar sem Neytendasamtökin hafa lengi kallað eftir, þetta er í takt við reglur sem hafa verið settar í Svíþjóð og Danmörku og ég trúi ekki öðru, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) en að þingheimur geti sameinast um reglur í þessa veru til að verja neytendur gegn lánahákörlum sem notfæra sér neyð fólks.