154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

Störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf):

Frú forseti. Mér finnst mikilvægt að ávarpa þá miklu umræðu sem hefur skapast að undanförnu um stöðu íslenskukunnáttu og íslenskukennslu barna í grunnskólum landsins. Við eigum auðvitað öll að hafa stórar áhyggjur af stöðunni. Kennarar ganga svo langt að segja að það sé verið að svíkja börn um menntun og veganestið sem þau eiga skilið að fá í hendurnar eftir grunnskólann sem ræður úrslitum um möguleika þeirra í framtíðinni.

Fjölmennasta sveitarfélagið tekur umfram önnur á sig mestu byrðarnar í samræmi við stærð og ábyrgð. Reykvísk börn fá ekki framlag frá ríkinu í samræmi við það sem þau leggja af mörkum sem með réttu ætti að koma frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Þetta er ólögmæt staða líkt og staðfest hefur verið með dómi héraðsdóms sem nú bíður áfrýjunar í boði ríkisstjórnarinnar. Þetta er í hrópandi ósamræmi við þá forgangsröðun sem ríkisstjórnin vill sýna fram á með aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu, þar sem merkilega lítil áhersla ætlar að verða á grunnskólanemendur landsins. Við bíðum öll eftir að sjá hvort og þá hvernig fjármögnun mun fara fram. Þetta kallar á mjög þétta samvinnu fimm ráðherra í þessari ríkisstjórn, ráðherra í ríkisstjórn sem allir vinna úti í sínu horni.

Forseti. Hvert einasta barn á rétt á að fá stuðning við að læra að fóta sig í þessu samfélagi og börn sem eiga foreldra sem tala annað tungumál en íslensku standa ekki jafnfætis þeim sem búa að þeim forréttindum. Þessi pólitíska forgangsröðun, að reyna að taka á móti sem fæstum flóttamönnum og halda að það virki eins og einhver töfrasproti og láti það vandamál hverfa að börn fá ekki íslenskukennslu við hæfi, sýnir aðeins að stjórnvöld eiga engin svör þegar spurt er um hvað rétt sé að gera fyrir fólk sem hingað flyst og vill verða hluti af okkar samfélagi. Þau svör eigum við jafnaðarmenn.