154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

Störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Samkvæmt úttekt Eystrasaltsráðsins frá árinu 2020 er Ísland bæði áfangaland og millilendingarstaður fórnarlamba mansals, fyrst og fremst kynlífsmansals og vinnumansals. Samkvæmt upplýsingum frá stjórnvöldum voru 56 mansalsmál til rannsóknar hér á landi á árunum 2016–2018. Mig langar að taka undir með hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur, sem talaði hér áðan, um að það þurfi að aðstoða fórnarlömb mansals og tryggja að þau fái þá aðstoð sem þau þurfa á að halda. En úrræðin eru til lítils þegar réttur þessara einstaklinga til dvalar hér á landi er enginn. Tvær tegundir af dvalarleyfum eru til fyrir annars vegar hugsanlegt fórnarlamb mansals og hins vegar fórnarlamb mansals. Ég sendi fyrirspurn til hæstv. ríkisstjórnar á síðasta þingi þar sem ég spurði hversu oft slík dvalarleyfi hefðu verið gefin út. Svarið var: Tvisvar, tvö slík dvalarleyfi hefðu verið gefin út á síðustu fimm árum, annað árið 2019 og hitt árið 2021.

Úrræðin eru auðvitað til lítils þegar fólk getur ekki notið þeirra. Það er ekki nema von að fórnarlömb mansals vinni ekki með lögreglu þegar það er engin leið til að tryggja þeim rétt til að vera hér á landi. Þau dvalarleyfi sem í boði eru eru annars vegar svokallað umþóttunarleyfi sem er erfitt að fá, gildir einungis í níu mánuði og er ekki endurnýjanlegt, byggir ekki undir rétt til varanlegrar dvalar. Þetta þýðir að dvalarleyfið er í rauninni hugsað fyrir lögreglu til þess að halda vitninu á landinu á meðan unnið er að rannsókn málsins. En eftir stendur spurningin: Hvers vegna í ósköpunum ætti einstaklingurinn að vinna með stjórnvöldum við þessar aðstæður? Hvers vegna í ósköpunum?