154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

Störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Um liðna helgi var flokksþing Framsóknar haldið í Reykjavík. Þar ríkti gleði og samvinna og samheldni sveif yfir vötnum. Það er alltaf gott þegar flokksfólk hittist og fer yfir liðna daga og horfir til framtíðar enda getur Framsókn lagt sín verk á kjörtímabilinu og lengra aftur kinnroðalaust fram og hefur sömu orku og vilja til að klára verkin fram að næstu kosningum. Sú ríkisstjórn sem setið hefur frá því haustið 2017 eða fyrir 2.334 dögum og var endurkjörin með öruggum meiri hluta árið 2021 hefur tekist á við fjölbreytt og fjölmörg verkefni og átt góða og slæma daga. Til að klára það verkefni hefur þurft ákveðni og víðsýni.

Virðulegi forseti. Í nýrri fjármálaáætlun kemur fram sterk staða þjóðarbúsins þrátt fyrir áföll síðustu ára, heimsfaraldur og jarðhræringar á Reykjanesskaga sem standa enn yfir og ekki sér fyrir endann á. Það er mikilvægt að beita skynsamlegri fjármálastefnu á næstu misserum til að halda jafnvægi, ná niður verðbólgu og halda í við skuldahlutfall ríkisins. Við neyðumst til að einblína á þau markmið þrátt fyrir stöðugan og góðan hagvöxt sem hefur verið 20% á síðustu þremur árum á meðan nágrannaríki okkar eru sum hver að berjast við neikvæðan hagvöxt. Atvinnustigið er hátt og íslenska þjóðarsálin vill hafa það þannig, en því fylgir spenna sem þarf að halda í við. Meðallaun hafa verið að hækka og það mikilvægasta er að nú í vetur náðust langtímakjarasamningar sem er á okkar ábyrgð að haldi. Það er öllum til framdráttar. Óvissan ríkir þó áfram og því þarf að fara varlega líkt og þegar þarf að lækka undir pottunum svo það sjóði ekki upp úr. Það þýðir að bata og áframhaldandi vöxt þarf að tryggja með því að halda aftur af útgjaldavexti.

Virðulegi forseti. Framsókn klárar verkin.