154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

Störf þingsins.

[14:05]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Staða öryrkja í dag er sú að ef launa- og verðlagsuppfærslur hefðu í raun og veru gilt fyrir örorkulífeyri þá ætti hann að vera u.þ.b. 60% hærri í dag heldur en hann er, merkilegt nokk. Núna eru fyrir þinginu kerfisbreytingar sem eiga að fylgja kjarabætur fyrir þennan hóp. Það var búið að lofa þeim kjarabótum frá næstkomandi áramótum en svo kom upp úr krafsinu að það var ekki hægt að innleiða lögin nægilega hratt og þeim var því seinkað um átta mánuði og kjarabótunum sömuleiðis, þrátt fyrir að búið væri að lofa kjarabótunum frá næstu áramótum og gera ráð fyrir þeim í síðustu fjármálaáætlun, sem er dálítið áhugavert. Það þýðir það einfaldlega að kjarabæturnar sem var lofað um næstu áramót og er seinkað, peningarnir sem var búið að úthluta í þær eru núna að fara í eitthvað annað, annaðhvort í önnur verkefni eða þá í að bæta afkomu ríkissjóðs, sem öryrkjar, sem var lofað þessari upphæð, eru að greiða fyrir. Það er mjög algengt í kjarasamningum að það séu gerðar afturvirkar hækkanir og það er ekkert sem kemur í veg fyrir það að þessi kjarahækkun, kjarabót sem átti að taka gildi um næstu áramót, taki ekki gildi átta mánuðum seinna heldur taki afturvirkt gildi um næstu áramót þegar búið er að innleiða allt þetta blessaða regluverk sem tekur svona langan tíma að gera. Ég skora því á stjórnvöld að standa við gefin loforð, klára verkin og ja, fara alla vega nær þessum 60% sem vantar upp á í kjörum öryrkja.