154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

lagareldi.

930. mál
[14:43]
Horfa

matvælaráðherra (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Erum við sátt við ástandið eins og það er? Það verður óbreytt verði þessi lög ekki að lögum. (Gripið fram í.) Viljum við það? Það er nú það fyrsta. Eins og kom fram í framsögu minni þá eru rekstrarleyfin samkvæmt núgildandi lögum til 16 ára. Það kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að við þurfum að gera betur og taka betur utan um það. Það var sérstaklega bent á að þegar rekstrarleyfin renna út hefur Matvælastofnun afar takmarkaðar heimildir til að synja aðila um endurnýjun þrátt fyrir að frávik hafi orðið í starfseminni eða hún ekki innan markmiða laganna. Enn fremur eru heimildir til afturköllunar rekstrarleyfa afar takmarkaðar í núgildandi lögum eins og ég fór afskaplega vel yfir.

Íslenskir firðir eru sameign þjóðarinnar, hv. þingmaður, (Gripið fram í.) og það er ekki verið að afhenda norskum auðmönnum eitt eða neitt. Ég vil nú líka vekja athygli á því að það hefur færst talsvert í aukana að innlendir aðilar hafi fjárfest í þessari grein, sem betur fer. Við störfum eftir EES-löggjöfinni, það þekkir hv. þingmaður, og það er ekki hægt að takmarka fjárfestingar erlendra aðila innan svæðisins.

Hv. þingmaður. (Forseti hringir.) Ég bara neita því að hér sé verið að afhenda auðlindirnar, eins og hv. þingmaður lagði hér fram, (Forseti hringir.) og tel að við séum að ná miklu betur utan um málið heldur en staðan er í dag.