154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

lagareldi.

930. mál
[14:44]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Er hv. þingmaður ánægður með ástandið eins og það er? Hæstv. ríkisstjórn verður að búa sér til betri talpunkta. Þau verða að finna sér almennilega afsökun fyrir þessum lagabreytingum. Það er algerlega óboðlegt að koma hingað inn í þingsal með svona málflutning. Afsökunin er núna sú að það sé ákveðin réttaróvissa til staðar, gott og vel, að það séu ekki nógu skýrar heimildir í lögum til að afturkalla leyfin. En hver er leið ríkisstjórnarinnar út úr þessu? Það eru til ýmsar leiðir til þess að breyta lögum hér í þessum sal. Lausn ríkisstjórnarinnar á þessu máli er að reyna að þröngva því hér í gegnum þingið að það verði staðfest með óafturkræfum hætti að leyfin séu ótímabundin. Þetta er sú leið sem Vinstrihreyfingin – grænt framboð og ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar vill fara, að styrkja stöðu laxeldisfyrirtækjanna en veikja stöðu íslensku þjóðarinnar til að ráða því sjálf hvernig er farið með sameiginlegar auðlindir okkar. Og svo kalla þau sig Sjálfstæðisflokk, svo tala þau um þjóðareign auðlinda á tyllidögum. Hvílík og ótrúleg hræsni. (Forseti hringir.) Hvernig dettur hæstv. ríkisstjórn í hug að það verði einhver sátt um þetta mál? (Forseti hringir.) Ég skal lofa ykkur því að það verður enginn friður um þetta mál í þessum sal. Það verður enginn friður um þetta mál úti í samfélaginu. Ég lofa því.