154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

lagareldi.

930. mál
[14:47]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Frú forseti. Það er freistandi að halda áfram að spyrja út í þessi ótímabundnu leyfi, ég bara veit ekki hvað ég fæ út úr því. Ég hjó samt eftir því að hæstv. ráðherra talaði eins og þetta frumvarp væri betra heldur en það sem er og þetta væri dálítið svona allt eða ekkert. Ég velti fyrir mér hvort það sé hluti af einhverju samkomulagi sem var gert innan ríkisstjórnarinnar um breytingar, af því að það er alveg ljóst að frumvarpið kemur gjörbreytt frá ríkisstjórninni miðað við hvernig það var, sérstaklega varðandi slysasleppingar og strokatburði. Það virtist í fyrstu vera vilji til að láta sjókvíaeldisfyrirtækin sæta ábyrgð gagnvart lífríkinu með því að minnka framleiðsluheimildir þeirra í hvert skipti sem slysasleppingar eða strokatburðir eiga sér stað. En þau ákvæði er hvergi að finna lengur eftir að þau fóru í gegnum ríkisstjórnina. Þess í stað hefur verið ákveðið að setja ákvæði um að rekstrarleyfishafar skuli greiða sektir til ríkissjóðs sleppi eldislax úr sjókvíum og sektirnar sem um ræðir eru þar að auki með þaki sem þýðir í raun að fyrirtæki fá magnafslátt þegar þau sleppa miklum fjölda fiska. (Forseti hringir.)

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig varð sú breyting? Hver var það sem breytti þessu? Úr hvaða flokki kemur þessi breyting og hvernig er hún til þess fallin að ná betur markmiðum frumvarpsins um verndun lífríkis og villta laxastofnsins og allt þetta fallega sem kemur fram í markmiðunum í byrjun? Hvernig eru þessar (Forseti hringir.) breytingar betur til þess fallnar að ná þeim markmiðum heldur en eins og þetta var áður en það fór í gegnum ríkisstjórnina?