154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

lagareldi.

930. mál
[14:49]
Horfa

matvælaráðherra (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekkert öðruvísi með þetta mál en önnur. Þegar þau koma úr samráðsgátt stjórnvalda þá eru oft gerðar ýmsar breytingar og það var að þessu sinni líka gert. Það er rakið mjög vel, og ég hvet hv. þingmann til að skoða það í greinargerðinni, þar sem farið er yfir helstu athugasemdir hagaðila og við hverju ráðuneytið brást. Ég vil líka minna á að hér er verið að leggja á 5 millj. kr. sekt við stroki. Ég hvet líka hv. þingmann til þess að lesa það mjög ítarlega í greinargerðinni því að það er mjög vel yfir það farið hvers vegna. Við þekkjum alveg hvað það er sem er undir þegar kemur að því hvers vegna fiskar strjúka. Það getur verið stærð möskvanna sem er þekktasta ástæðan þegar við erum að fara yfir þau mál. En ég bara vil vekja athygli á því að það eru mjög drjúgar sektir. Það að svipta leyfi, eins og gert var ráð fyrir í upphaflegu frumvarpi, var ekki talið standast atvinnuréttindi í stjórnarskrá.