154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

lagareldi.

930. mál
[14:50]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Ég var að spyrja út í þá breytingu sem varð, ekki með að svipta leyfi heldur að minnka framleiðsluheimildir, sem var raunverulega til þess fallið að bíta, þ.e. þegar það verða slysasleppingar þá sé það úrræði notað að minnka framleiðsluheimildir hjá fyrirtækjunum. Það er fullkomlega rökrétt og er raunverulega til þess fallið að hafa einhvers konar forvarnagildi. Þá fyrst virkilega beita fyrirtækin sér fyrir því að koma í veg fyrir slysasleppingar. Ég spurði ráðherra: Hvaða rök liggja undir? Hvaða rök eru fyrir því að gera þessa breytingu? Hvernig mun það að sekta í staðinn fyrir að minnka framleiðsluheimildir betur ná markmiðum um verndun vistkerfisins, verndun villta laxastofnsins, sem er uppleggið í þessu frumvarpi samkvæmt markmiðskafla frumvarpsins?