154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

lagareldi.

930. mál
[14:59]
Horfa

matvælaráðherra (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er þetta með auðlindir í stjórnarskrá. Það hefur einmitt gengið illa hér innan þings að laga það. Ég hefði svo sannarlega verið til í að við hefðum getað klárað okkur af stjórnarskrárbreytingum sem fyrrverandi forsætisráðherra lagði hér margítrekað fram. En við þurfum bara að velta því upp: Er tíminn auðlind? Örugglega, að einhverju leyti. Eru firðirnir auðlind? Hvað er auðlind? Hvort tveggja kannski í þessu samhengi. Það að vera með ótímabundið leyfi er ekki óafturkræft svo að því sé haldið til haga. Ég lýsti því áðan að hér væri hægt að taka í handbremsu. Þrátt fyrir stunur hér utan úr sal þá er það nú bara þannig að það er hægt að taka í handbremsu, bregðast við ef aðilar uppfylla ekki skilyrðin sem hér eru verulega þrengd, með dýravelferð og náttúruvernd að leiðarljósi og undirliggjandi í gegnum allt málið. Ég vona svo sannarlega, eins og ég sagði hér áðan, að atvinnuveganefnd gefi sér góðan tíma til að fara vel ofan í þessi atriði því að mér finnst umræðan (Forseti hringir.) vera talsvert á villigötum.