154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

lagareldi.

930. mál
[15:01]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg óendanlega döpur yfir þessari framsetningu, ekki yfir því að hæstv. forseti sé í forsetastól heldur yfir því sem því máli sem við erum að ræða hér. Sinnuleysi, metnaðarleysi, það er hægt að segja alls konar, en ég hef mestar áhyggjur af því að við erum ekki með fólk á vaktinni í ráðherrastól sem stendur vaktina fyrir þjóðina, sem stendur vaktina fyrir þjóðareign. Það er ekki verið að beita sér fyrir því hér. Ég veit ekki hvert Framsókn og Vinstri græn eru komin. Formaður Framsóknarflokksins lagði á sínum tíma, 2013 eða 2014, fram frumvarp sem fól í sér tímabundnar heimildir varðandi fiskveiðistjórnarlögin. Og hvað gerðist? Sjálfstæðisflokkurinn stoppaði það, allur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins. Svo kemur ráðherra hingað upp og segir: Það er allt í lagi, nefndin getur bara skoðað þetta, það er hægt að breyta þessu.

Það er ekki þannig. Reynslan er búin að sýna okkur að það er erfitt að breyta því sem við þurfum að breyta í þágu þjóðar. Ég grátbið ráðherra að fela nefndinni það að breyta yfir í tímabundin leyfi. Við getum hert á afturköllun, (Forseti hringir.) við getum farið í meiri dýravelferð, allt undir tímabundnu leyfi. Þetta er prinsippmál. Þetta er prinsippmál og við munum stoppa það (Forseti hringir.) og gera allt til þess að stoppa þetta ef ríkisstjórnin sér ekki að sér.