154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

lagareldi.

930. mál
[15:02]
Horfa

matvælaráðherra (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ósammála hv. þingmanni þegar hún flytur hér mál sitt í þessa veru. Ég tel að málið sé framfaraskref og ég tel að það sé mikil þörf á því að við náum því í gegn. Ég er ekki að halda því fram að það fari í gegn algjörlega óbreytt og að þingnefndin geri ekki nokkurn skapaðan hlut. Það er sjaldnast þannig, ekki síst þegar við erum með stóra lagabálka undir. En ég ætla ekki að leggja það til við nefndina hvað hún á að gera. Það finnst mér ekki við hæfi enda er ég bara sannfærð um að þessi leið sem hér er lagt upp með sé betri heldur en sú sem hv. þingmaður leggur hér til.