154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

lagareldi.

930. mál
[15:27]
Horfa

matvælaráðherra (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Af því að hv. þingmaður kom inn á það að horfa til þeirra landa í kringum okkur sem hafa verið í fiskeldi eins og til Noregs og Færeyja, sem voru hér nefnd, þá var það auðvitað gert, að sjálfsögðu. Fólk er búið að vinna baki brotnu við að vinna þetta mál vel og við erum að ganga miklu lengra heldur en bæði Norðmenn og Færeyingar þegar kemur að náttúruverndinni t.d., bara til að halda því til haga. Það er líka mikilvægt að það er hægt að grípa inn í. Það er hægt að breyta lögum, það er hægt að takmarka rekstur o.s.frv., þegar verið er að tala hér um þessi leyfi. Og af því að hv. þingmaður kom líka inn á framsal þá er framsal heimilt í dag, svo því sé haldið til haga. Það er ekki nýmæli í þessu frumvarpi. Færeyingar eru með útgefin leyfi til 12 ára í senn. Það hefur aldrei gerst að þeir hafi ekki endurnýjað þau þrátt fyrir öll þau áföll sem þar hafa orðið og við þekkjum. Ég átti þess kost að fara með atvinnuveganefnd í fyrra í heimsókn, við heimsóttum fyrirtækin í Færeyjum og hittum svo þá aðila sem vinna með þessi mál í þinginu í Noregi. Það var mjög fróðlegt og af því að hér var líka aðeins verið að ræða um skatta og gjöld þá var einmitt sú leið sem verið er að reyna að fara í þessum tveimur löndum til umfjöllunar og hún þykir mjög flókin og erfið í útfærslu og óvíst um ávinning af henni. En það er alveg rétt sem hér hefur komið fram að greinin er að borga hér talsvert meira heldur en aðrar atvinnugreinar, t.d. í sjávarútvegi hér á landi, þannig að ég tel að við getum vel við unað hvað varðar gjaldtökuna.