154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

lagareldi.

930. mál
[16:33]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni yfirferðina. Mig langar aðeins að spyrja þingmanninn, vegna þess að við heyrðum hér sérstaklega í svörum hæstv. ráðherra við andsvörum að ráðherra bindur miklar vonir við þinglega meðferð þessa máls og umfjöllun nefndarinnar um það. Þetta kom sérstaklega fram í tengslum við það atriði sem snýr að tímabindingu leyfanna þar sem er verið að færa þau úr því að vera bundin til ákveðins árafjölda upp í það að vera ráðstafað ótímabundið. Ég skildi ráðherrann sem svo að atvinnuveganefnd gæti bara fundið út úr þessu og bara tekið stöðuna á því hvað best þætti. Ég verð nú að viðurkenna að ég hefði reiknað með að þetta væri slíkt grundvallaratriði í málinu að það hefði sennilega verið leitt í jörð milli stjórnarflokkanna áður en málið liti dagsins ljós og þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann hver staðan er í þeim herbúðum, hvaða svigrúm hann telur vera innan stjórnarliðsins gagnvart því atriði að breyta tillögu ráðherra um ótímabundnar heimildir aftur í tímabindingu með einhverjum hætti. Er þetta eitthvað sem stjórnarliðarnir eru í raun og veru opnir fyrir eða megum við eiga von á því að atvinnuveganefnd komist ekkert lengra með þann þátt, þar sé allt útrætt þeirra á milli?