154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

listamannalaun.

937. mál
[21:29]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um listamannalaun, nr. 57/2009. Með frumvarpinu sætir listamannalaunakerfið efnislegri endurskoðun í fyrsta sinn frá setningu laganna árið 2009. Slík endurskoðun er nauðsynleg og tímabær í ljósi þeirra breytinga sem hafa orðið síðan, m.a. með tilliti til fólksfjölgunar og annarrar þróunar í hagkerfinu auk áherslna á listsköpun og skapandi greinar sem vaxandi atvinnugreina á Íslandi.

Í fyrsta lagi fela breytingarnar í sér stofnun þriggja nýrra launasjóða sem starfslaun eru veitt úr. Einn þeirra er sérgreindur sjóður fyrir kvikmyndahöfunda, þ.e. leikstjóra og handritshöfunda. Stofnun sjóðs fyrir kvikmyndahöfunda hefur lengi staðið til og er m.a. í samræmi við aðgerð 9 í kvikmyndastefnu til ársins 2030. Hinir tveir eru þverfaglegir sjóðir, annars vegar sjóður að nafni Vöxtur, sem ætlaður er ungum og upprennandi listamönnum og hins vegar sjóður að nafni Vegsemd, sem er fyrir listamenn 67 ára og eldri sem varið hafa starfsævi sinni í þágu listarinnar. Vexti er ætlað að styðja sérstaklega við unga listamenn sem ekki hafa enn skapað sér styrkja stöðu innan sinnar listgreinar. Markmið sjóðsins er að auka nýliðun og efla unga listamenn sem kunna að vera nýlega komnir úr námi eða að hefja sinn starfsferil. Er þessum sjóði m.a. ætlað að koma til móts við þá gagnrýni sem heyrst hefur að lítil nýliðun sé innan kerfisins. Vegsemd er sérstakur þverfaglegu sjóður sem ætlað er að heiðra eldri listamenn sem hafa varið starfsævi sinni til listsköpunar og skarað fram úr á sínu sviði.

Í öðru lagi er lagt til að þeim mánaðarlegu starfslaunum sem árlega koma til úthlutunar í kerfinu verði fjölgað úr 1.600 í 2.670, eða um samtals 1.070 mánaðarlaun. Af fjölguninni renna 460 mánuðir í hina nýju sjóði en hinir dreifast á milli þeirra sjóða sem fyrir voru. Dreifingin sem lögð er til með frumvarpinu byggist á fyrirkomulaginu eins og það er í gildandi lögum, að teknu tilliti til tölfræði yfir fjölda umsókna um listamannalaun úr hverjum sjóði og hlutfall árangurs þeirra umsókna á undanförnum tíu árum.

Verði frumvarpið að lögum fjölgar mánuðum til úthlutunar úr launasjóði hönnuða mest eða úr 50 í 100. Það er í samræmi við það markmið sem fram kemur í gildandi hönnunarstefnu til ársins 2030 að auka hlut hönnuða í starfslauna kerfinu.

Virðulegur forseti. Með frumvarpinu er ætlunin að auka veg listsköpunar og skapandi greina í landinu og bæta hag þeirra sem leggja listina fyrir sig. Með tilkomu nýs sérgreinds sjóðs kvikmynda höfunda eykst fjölbreytni þeirra listaflóru sem nýtur opinbers stuðnings um starfslaunakerfið. Með tilkomu nýrra þverfaglegrar sjóða verður kerfið betri grundvöllur fyrir nýliðun í listageiranum og hins vegar undir viðurkenningu og trygga afkomu þeirra sem reyndari eru og hafa helgað sig listinni.

Virðulegur forseti. Ég læt hér með lokið máli mínu og legg til að frumvarpinu verði vísað til meðferðar í hv. atvinnuveganefnd að lokinni 1. umræðu.