154. löggjafarþing — 102. fundur,  24. apr. 2024.

viðbrögð við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu.

[15:03]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Nýlega féll dómur Mannréttindadómstóls Evrópu gagnvart Íslandi sem komst að þeirri niðurstöðu að Ísland hefði gerst brotlegt við 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem fjallar um rétt okkar til aðgengis að raunhæfu úrræði, og 3. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu um rétt okkar til frjálsra og lýðræðislegra kosninga. Það hefur svolítið verið rætt um þýðingu þessa dóms. Ein af afleiðingunum er að við verðum að taka til alvarlegrar skoðunar hvernig staðið er að staðfestingu þess að rétt hafi verið staðið að alþingiskosningum og skoða hvort mögulega þurfi stjórnarskrárbreytingar við. Ég veit til þess, virðulegi forseti, að vinna er hafin á Alþingi, í dómsmálaráðuneytinu og forsætisráðuneytinu til að skoða þessi mál. Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra út í afstöðu sína gagnvart viðeigandi viðbrögðum við þessum dómi, þá sér í lagi í ljósi málsvarnar íslenska ríkisins fyrir Mannréttindadómstólnum en þar var því haldið fram af hálfu íslenska ríkisins að umsækjendurnir hefðu ekki fullnýtt sér rétt sinn hér á Íslandi, hefðu ekki leitað allra viðeigandi úrræða hérlendis. Þetta var málsvörn íslenska ríkisins fyrir Mannréttindadómstólnum. Við getum illa lagað þetta ástand sem dómstóllinn bendir á að sé andstætt sáttmálanum fyrir næstu kosningar vegna þess að til þess þyrfti þá líklega stjórnarskrárbreytingar sem þurfa að fara í gegnum tvö þing o.s.frv. Því vil ég spyrja hvort miðað við þessa málsvörn íslenska ríkisins hafi virkt réttarúrræði verið í boði fyrir umsækjendurna, hvort þeir hafi getað leitað til dómstóla með niðurstöðu Alþingis um að það væri réttkjörið og hvort mögulega þurfi að skýra það í landslögum (Forseti hringir.) að hægt sé að leita til dómstóla með það hvort Alþingi sé réttkjörið eftir að kjörbréfanefnd hefur komist að sinni niðurstöðu og Alþingi greitt um hana atkvæði.