154. löggjafarþing — 102. fundur,  24. apr. 2024.

viðbrögð við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu.

[15:05]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér er spurt út í mikilvægt mál og það varðar í raun og veru það grundvallaratriði hvort íslenska löggjöfin og framkvæmd á grundvelli hennar sé í samræmi við skuldbindingar okkar sem byggja á mannréttindasáttmála Evrópu. Niðurstaða dómsins er að það þurfi að gera bragarbót, að íslenska fyrirkomulagið standist ekki kröfur sáttmálans. Þá stöndum við frammi fyrir því að svara með hvaða hætti við ætlum að gera breytingar á okkar reglum um þetta efni. Mér finnst mikilvægt að halda því til haga að það hefur í sjálfu sér ekki verið deilt um það að þær reglur sem gilda um úrlausn svona mála hafi verið látnar eiga við og þeim hafi verið fylgt. Ég tel að svo hafi verið. Ég tel að þegar við vorum að vinna úr þessu máli höfum við gert það á grundvelli þess sem lög boðuðu. En eftir situr sú spurning hvort þau lög þurfi að taka breytingum eða eftir atvikum hvort það kalli á að við gerum stjórnarskrárbreytingar. Auðvitað getur Mannréttindadómstóllinn ekki sagt okkur að gera stjórnarskrárbreytingar, hann getur bara vísað okkur til um það hvort við uppfyllum þær skuldbindingar sem við höfum undirgengist. Þannig að það er fyrsta atriðið, að skoða það og komast til botns í því. Við eigum tillögur sem myndu koma til móts við þessar athugasemdir. Síðan er það þessi málsvörn íslenska ríkisins fyrir dómstólnum. Ég tel að það hafi verið eðlilegt að halda því á lofti, sem er dálítið réttarfarslegt atriði, að það væri ekki tímabært að taka málið fyrir hjá dómstólnum fyrr en það væri búið að tæma úrræði sem stæðu til boða á Íslandi. Það var ekki á þetta fallist, þetta var ekki talin vera raunhæf krafa á hendur þeim sem fluttu málið gegn ríkinu og þá bara varð það niðurstaðan og ekkert meira um það að segja.