154. löggjafarþing — 102. fundur,  24. apr. 2024.

viðbrögð við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu.

[15:07]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Þessi málsvörn íslenska ríkisins kom mér ansi spánskt fyrir sjónir vegna þess að það virðist hafa verið töluverður samhljómur um að það sé einmitt ekki hægt að leita með þetta, niðurstöðu kosninga og úrskurð eða ákvörðun Alþingis í þeim efnum, til dómstóla þó að aldrei hafi á það reynt, mögulega vegna þess að við teljum að það eigi ekki heima þar. Þannig að mér fannst pínu vandræðalegt af íslenska ríkinu að halda því fram að það væri raunhæft úrræði ef það trúir því ekki einu sinni sjálft að það sé raunhæft úrræði.

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra: Telur hann í ljósi þessarar niðurstöðu tilefni til þess að breyta stjórnarskránni og ef svo er, hvers vegna var þá þessari málsvörn haldið fram þar sem — ja, ef við höldum áfram með það þá væri ekki tilefni til að breyta stjórnarskránni? Ég bara átta mig ekki á því hvert verið er að fara með Mannréttindadómstólinn með því að halda þessu fram. Mér fannst þetta ákveðin vanvirðing við dómstóla og sér í lagi vegna þess að íslenska ríkið gat ekki komið fram með neinar sannanir fyrir þessari staðhæfingu sinni og þetta var okkar eina málsvörn. Telur hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) tilefni til að breyta stjórnarskránni og ef ekki, hvers vegna ekki?