154. löggjafarþing — 102. fundur,  24. apr. 2024.

setning auðlindaákvæðis í stjórnarskrá.

[15:10]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir því að ég er búin að fá fundarboð á fund formanna flokkanna á þriðjudag frá forsætisráðherra um framhald á stjórnarskrárvinnunni, sem ég tel mjög mikilvægt. Ég vil fagna því sérstaklega enda tel ég að það sé hægt að ná samkomulagi um mjög marga hluti. Hins vegar verð ég að segja að eftir frekar brösuga byrjun ríkisstjórnarinnar undir forystu Sjálfstæðisflokksins í síðustu viku upplifðum við að mínu mati subbuskap með því að samkeppnislögin voru sniðgengin og mulið undir sérhagsmuni. Og í gær var fyrir margra hluta sakir áhugavert mál. Margt sem er í því sem snýr að fiskeldi er hægt að taka undir en það er eitt atriði sem er algjört prinsippatriði í huga okkar Viðreisnar og það varðar ákvæði sem veitir fiskeldisfyrirtækjunum leyfi til varanlegra nota. Engin tímabinding, enginn fyrirvari hvað þetta varðar, er ekki bara umhugsunarvert, það er varhugavert. Þetta er brösug byrjun. Það er verið að ýta undir, að mínu mati og okkar mati, sérhagsmuni sem felast í því að verið er að ganga á auðlindir þjóðar. Það er ekki verið að tryggja þjóðinni rétt yfir auðlindum sínum með skýrum og afdráttarlausum hætti. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hann muni beita sér og treysti sér til að beita sér fyrir því — af því að ég hjó líka eftir því að hann sagði að það yrði að vera sátt um alla hluti — að við leggjum fram í vinnu formanna flokkanna auðlindaákvæði sem raunverulega tryggir og treystir rétt þjóðarinnar yfir auðlindum sínum og að hún afhendi ekki á neinn hátt rétt sinn, þjóðareignina, (Forseti hringir.) til einhverra um aldur og ævi eða á varanlegan hátt eins og er boðað í þessu frumvarpi.(Forseti hringir.) Megum við búast við vinnu um auðlindaákvæðið?