154. löggjafarþing — 102. fundur,  24. apr. 2024.

setning auðlindaákvæðis í stjórnarskrá.

[15:12]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér er dálítið farið um víðan völl, talað um byrjun ríkisstjórnarinnar og fiskeldismálið sem var rætt hér í gær og fundarboð stjórnarskrárvinnunnar og síðan við hverju megi búast á þeim fundum. Við höfum nú þegar lagt gríðarlega vinnu í auðlindaákvæðið, gríðarlega vinnu. Fyrrverandi forsætisráðherra lagði fram á þingi frumvarp með auðlindaákvæði. Það var sem sagt þannig að flokkar sem standa að baki meiri hluta þingsins lýstu því yfir að þeir gætu stutt ákvæðið eins og það var lagt fyrir þingið. Þetta er afrakstur af margra ára vinnu og mörgum úttektum á auðlindaákvæðinu. En það er t.d. flokkur hv. þingmanns sem hefur hafnað þeirri útfærslu á ákvæðinu og ég skal bara segja það eins og er að ég er mjög hugsi yfir því hvort það sé miklum tíma verjandi í framhald þessa rifrildis sem er búið að standa núna síðan — nú er 2024 og ég man eftir ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hérna 2009 að vinna við að breyta stjórnarskránni. Það eru 15 ár síðan. Nú er rúmt ár eftir af kjörtímabilinu. Eigum við að fara að tala um það sem er erfiðast að ná sátt um eða eigum við að byrja á því sem við gætum náð sátt um, sem hv. þingmaður vék að og eru held ég fjölmörg atriði?

Varðandi tímabundin og ótímabundin leyfi þá finnst mér því allt of oft haldið fram í umræðunni að leyfi sem ekki eru háð einhverjum afmörkuðum tímatakmörkunum séu ígildi einhvers eignarréttar en það er algjörlega óumdeilanlegt að hægt er að afturkalla slík leyfi og t.d. gera samninga. Og þegar menn hafa talað um að það sé skynsamlegt að vera með tímabundna samninga, langtímasamninga, þá er alltaf í sömu andrá talað um að það sé mikilvægt að það sé fyrirsjáanleiki þannig að það sé sjálfkrafa endurnýjun t.d. á gildistímanum eða að áður en (Forseti hringir.) samningurinn er runninn út sé hann framlengdur til langs tíma. Þannig að þetta er það stór og flókin umræða að hún verður ekki tæmd hér í fyrirspurnatíma.